Kvikmyndir, leikhús, myndlist, vísindi og greifinn af Monte Kristó.
Menningarreisa 3ja bekkjar 2025.
Kvikmyndasafn Íslands, Borgarleikhúsið, Safnahúsið og Bíó Paradís. Þetta voru staðirnir sem nemendur 3ja bekkjar Menntaskólans að Laugarvatni heimsóttu miðvikudaginn 5. mars. Það voru nemendur í þremur valáföngum sem tóku þátt í ferðinni, alls 24 nemendur í Kvikmyndasögu, Upplifðu Suðurland og Textílmennt. Kennararnir sem fengu að koma með voru Sigurður Pétursson, Jón Forni Snæbjörnsson og Jórunn Elva Guðmundsdóttir. Pálmi Hilmarsson sá um að allir komust heilir að heiman og heim.
Fyrsti viðkomustaður var Kvikmyndasafn Íslands í Hafnarfirði. Þar fékk hópurinn að kynnast safninu og starfsemi þess, sjá filmugeymslur safnsins, gamlar sýningarvélar og tæki til kvikmyndagerðar og starfsfólk við skráningu, hreinsun og yfirfærslu mynda á stafrænt form. Þar fengum við líka að heyra af nýuppgötvuðum kvikmyndum frá Patreksfirði og úr Árneshreppi sem safninu bárust nýverið.
Eftir hádegishlé í Kringlunni var farið í Borgarleikhúsið. Hópurinn stillti sér upp og tók lagið fyrir starfsfólk leikhússins, enda alvanir söngkraftar úr Kór ML! Og fengu að launum sælgætispoka, enda var þetta Öskudagur. Þá voum við leidd um sali og svið, verkstæði og rangala leikhússins og hápunkti náði leiðangurinn þegar við vorum leidd yfir ljósabrúna langt fyrir ofan aðalsal leikhússins. Fróðlegt að koma uppá sviðið og sjá baksviðs í leikhúsinu og fræðast um öll þau störf sem liggja að baki heilli leiksýningu.
Úr leikhúsinu var farið í Safnahúsið við Hverfisgötu, á myndlistarsýningu og tæknisýningu í nýstárlegri framsetningu. Þar voru mörg frægustu málverk og skúlptúrar Listasafns Íslands sett í nýtt samhengi við tækni og vísindi á landi, í sjó og í lofti. Hefðbundin verk og nýlist í bland, sett í nýtt samhengi.
Þá var komið að bíósýningu í Bíó Paradís. Að þessu sinni varð fyrir valinu myndin Greifinn af Monte Cristo, splunkuný frönsk kvikmynd eftir hinni þekktu skáldsögu Alexander Dumas frá 1846. Ótrúlega vel gerð kvikmynd, full af dramatík og spennu og hélt athyglinni vel þó hún væri hátt í þrír tímar að lengd.
Að lokinni bíósýningunni var staldrað við á Sprengisandi og snæddur kvöldverður, hamborgaratilboð með frönskum. Þar var komið að heimferð og skilaði hópurinn sér að Laugarvatni laust uppúr klukkan níu um kvöldið, eftir vel heppnaðan dag.



