Þriðjudaginn 17. október fengum við góða gesti í heimsókn til okkar frá Geðlestinni og með þeim í för var tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti. Allir nemendur skólans sem og kennarar komu saman í matsal og hlustuðu á áhugaverða og þarfa fræðslu Geðlestinnar sem er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717.
Samkvæmt Geðlestinni búum við öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Á lífsleiðinni er líklegt að lenda í mótvindi og þá getur verið þörf á að leita sér aðstoðar. Með þessu framtaki vill Geðlestin vekja athygli á mikilvægi geðheilsu og verndandi þáttum hennar. Nemendur eru hvattir til þess að tjá sig um tilfinningar sínar frekar en að byrgja þær inn, ræða við einstaklinga sem þeir treysta. Lífið er ekki ein stór brekka þó það virðist stundum vera það. Tölum saman, finnum leiðir og hjálpum hvert öðru í gegnum lífið og ef við lendum í ólgusjó þess.
Eftir fræðsluna voru örtónleikar með Emmsjé Gauta, því mikilvægur hluti af geðrækt einstaklinga er að gleðjast. Emmsjé Gauti náði heldur betur salnum á sitt band eins og sjá má á myndunum hér. Um 11 á mánudegi var dansað uppi á borðum og um matsalinn.
Við bendum á heimasíðu Geðlestinnar www.gedlestin.is fyrir nánari upplýsingar og minnum á hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjallið 1717.is
Margrét Elín og Jóna Katrín