Um síðustu helgi fóru fram árlegir jólatónleikar kórs ML í Skálholtskirkju. Að þessu sinni voru tónleikarnir óhefðbundnir, þar sem kórnum hlotnaðist sá mikli heiður að taka þátt í jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Ásamt hljómsveit og kór voru einnig sópransöngkonan og Grammy-verðlaunahafinn Dísella Lárusdóttir og tenórsöngvarinn Eyjólfur Eyjólfsson. Með undraverðum hætti tókst að koma um 170 flytjendum fyrir í kirkjunni. Haldnir voru þrennir tónleikar fyrir fullri kirkju. Var þetta einstaklega hátíðleg stund þar sem lagaval og heillandi flutningur fluttu viðstöddum hinn eina sanna jólaanda. Verkefnið var svo sannarlega einstakt og óvíst hvort eða hvenær kórinn taki þátt í sambærilegu verkefni aftur.
Kórinn flutti meðal annars lögin Christmas Festival, Jólasveinar ganga um gólf, Jólin alls staðar og Ó helga nótt, en tónleikunum lauk með laginu Frá ljósanna hásal.“ Hrós fær Guðmundur Óli stjórnandi fyrir einstaklega skemmtilegar útsetningar laga sem gáfu einnig byrjendum færi á því að spila með og var aldursbil flytjenda afar breytt. Aðdáunarverð vinna Eyrúnar Jónasdóttur kórstjóra sem og metnaður ungmennanna skein í gegn og fallegar raddir þeirra bárust vel um alla kirkju við undirspil hljómsveitarinnar. Svo sannarlega mögnuð og ógleymanleg upplifun fyrir bæði þátttakendur og áheyrendur.
Einnig er vert að minnast á samstarf kórstjórnar við Guðmund Óla og Margréti Blöndal framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar sem gekk eins og í sögu. Hrafntinna Jónsdóttir gjaldkeri stóð sig afar vel í miðasölunni ásamt Þórkötlu Loftsdóttur formanni, Þóreyju Kristínu Rúnarsdóttur ritara, Önnu Regínu Sch. Viðarsdóttur og Sveini Bjarka Markússyni meðstjórnendum. Jóna Katrín skólameistari var kórstjórn ávallt innan handar og studdi verkefnið í einu og öllu. Erla húsfreyja og Pálmi húsbóndi eru engum lík og leysa öll verkefni sem viðkemur skólanum, þau eiga mikið lof fyrir óbilandi vinnu sína í kringum kórinn sama hversu stórt verkefnið er. Svenni kokkur sá til þess að kórmeðlimir fengu nesti og mat á æfingum og tónleikum. Ánægjulegt var líka að FOMEL, foreldrafélag Menntaskólans mætti með smákökur og ávexti sem nemendur gæddu sér á milli tónleika. Færum við öllum sem lögðu hönd á plóg innilegar þakkir.
Að lokum hvet ég ykkur til að fylgja Menntaskólanum að Laugarvatni á Facebook, þar sem Pálmi Hilmarsson húsbóndi mun birta myndbrot af tónleikunum og hér má líka sjá nokkrar stemmningsmyndir teknar á tónleikum.
Kær aðventukveðja og gleðileg jól,
Margrét Elín Ólafsdóttir
Verkefnastjóri kórs Menntaskólans að Laugarvatni.