Í síðustu viku hélt kórinn sína árlegu jólatónleika í Skálholtskirkju. Haldnir voru þrennir tónleikar og var fullt út úr dyrum á öllum þeirra. Tilhlökkunin var mikill, bæði hjá áhorfendum og kórmeðlimum og þá sérstaklega því þetta eru fyrstu jólatónleikar kórsins með áhorfendum síðan jólin 2019.
Lagavalið var fjölbreytt, íslensk og erlend jólalög í bland og má þar nefna Klukknanna köll, Það snjóar,Happy X-mas, Little drummerboy og Dansaðu vindur. Eins var kórnum skipt upp í smærri einingar þar sem stelpur, strákar og bekkir tóku lög saman. 1. bekkur stóð sig með prýði á sínum fyrstu stórtónleikum.
Kórinn er svo sannarlega fullur af hæfileikaríkum hljóðfæraleikurum. Margrét Inga Ágústsdóttir spilaði á píanó og slagverk, Arnar Högni Arnarsson og Axel Ýmir Grönli spiluðu á bassa, Jade Jóhanna Mcdevitt og Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson spiluðu á gítar og Sólveig Lilja Guðjónsdóttir á slagverk. Færum við þeim þakkir fyrir sitt framlag. Þess má einnig geta að kórfélagar kynntu öll atriði kvöldsins.
Eyrún Jónasdóttir kórstjóri á heiður skilið fyrir vel unnin störf og einnig er vert að minnast á kórstjórnina sem stóð sig virkilega vel í tengslum við allt skipulag og miðasölu. Í kórstjórn sitja Helga Mjöll Sigurðardóttir formaður, meðstjórnendurnir Emilía Sara Kristjánsdóttir og Hrafntinna Jónsdóttir, María Sif Rossel Indriðadóttir gjaldkeri og Hekla Dís Sigurðardóttir ritari.
Óhætt er að segja að tónleikarnir heppnuðust afar vel og töluðu gestir um gæsahúð og tárvot augu eftir fallegan flutning og trúum við ekki öðru en allir hafi gengið sælir út í kvöldið í jólaskapi.
Þess má geta að kórinn tekur þátt í jólatónleikum í Skálholtskirkju 7. desember ásamt fleiri kórum. Allar upplýsingar um þann viðburð má finn á Facebook: Kærleiksstund á aðventu – Fjölbreytt og falleg jólatónlist í flutningi 210 söngvara
Við látum nokkrar myndir fylgja af viðburðinum.
Jólakveðjur, Margrét Elín verkefnastjóri kórs ML.