Afmælisárgangar komu færandi hendi á útskrifarhátíð 28. maí. Hefð er fyrir því að útskrifaðir ML-ingar júbileri á fimm ára fresti og færa skólanum þá jafnan gjafir. Útskriftarárgangar þetta árið gáfu annars vegar fé til viðgerða á skólaspjöldum sem hafa dofnað með tímanum og hins vegar til kaupa á tækjum og tólum sem skólinn mun nýta í nýju tæknirými sem til stendur að taka í gagnið á vorönn 2023. Um verður að ræða list- og verkgreinastofu sem verður í gömlu Brytaíbúðinni í austurenda aðalbyggingar skólans.  

Fulltrúi júbílanta, 20 ára stúdent Þorkell Snæbjörnsson, gerði grein fyrir gjöfum þeim sem bárust frá árgöngunum. Honum láðist þó að minnast á framlag 60 ára stúdenta og vill koma formlegri afsökunarbeiðni á framfæri vegna þess, hér og nú.  

Menntaskólinn að Laugarvatni og starfsfólk hans þakkar hjartanlega fyrir þær góðu gjafir er honum voru færðar og ekki síður þá vináttu, tryggð og velvild er honum er auðsýnd af nemendasamfélaginu.