Skýrsla um innra mat fyrir árið 2022-2023 var gefin út í september og eru allir hagaðilar hvattir til að kynna sér hana. Unnið var úr niðurstöðum áfangamats, Stofnunar ársins, þjónustukönnunar og könnunar meðal útskrifaðra stúdenta. „Vissulega var og er ætíð ýmislegt sem má læra af og gera betur”, eins og forseti íslenska lýðveldisins komst að orði við 70 ára afmæli ML. Þess vegna er rýnt í niðurstöður, sett umbótaáætlun og unnið markvisst að því að jákvæð þróun eigi sér stað. Búið er að leggja skýrsluna fyrir á starfsmannafundi og á fundi sjálfsmatsnefndar. Hún er einnig send til Mennta- og barnamálaráðuneytisins, stjórnar nemendafélagsins Mímis og foreldrafélagsins FOMEL.  

Það er alltaf gagnlegt að fá raddir þeirra sem útskrifuðust fyrir 3-5 árum. Yfirgnæfandi meirihluti kveðst mjög ánægð/ur með dvölina í ML á heildina litið. Stefna skólans er að veita góðan undirbúning fyrir frekara nám og þess vegna er mikils virði að lesa svona umsagnir:  

ML undirbjó mig mjög vel í mannlegum samskiptum og jók sjálfstæði mitt. Verkefni úr ML undirbjuggu mig mjög vel fyrir verkefni i háskólanámi og sé ég að ég er betur í stakk búin að vinna ritgerðir og þess háttar heldur en aðrir.”  

Fyrirsögn þessarar fréttar er líka tilvitnun í fyrrum nemanda:  

„Kennarar góðir og gott utanumhald og svo auðvitað félagslífið og vistin.” 

Freyja, gæðastjóri og formaður sjálfsmatsnefndar