Kór Menntaskólans að Laugarvatni var síðastliðna helgi í kórbúðum í Aratungu. Auk stífra æfinga var einnig unnið að því að þjappa hópnum saman því margir nýir komu inn í kórinn í haust. Lagt var af stað rétt eftir hádegi á föstudegi, byrjað var á kóræfingum og eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem skemmtiatriði og leikir fóru fram. Laugardagurinn byrjaði á æfingum og enduðu kórbúðirnar á æfinga- og styrktartónleikum. Kórinn stefnir að Ítalíuferð í vor og liggur mikil vinna þar að baki, bæði í formi æfinga og fjáröflunar sem vonandi verður tekið vel í. Þess má geta að í kórnum eru samtals 132 nemendur, þar af 38 úr 1. bekk sem komu nýir inn. Eyrún Jónasdóttir kórstjóri stýrir kórnum af mikilli fagmennsku. Undirrituð getur vottað það að búðirnar heppnuðust afar vel sem og tónleikarnir. Það  verður virkilega gaman að fylgjast með kórnum í ár. Næstu tónleikar verða í Skálholti 29. og 30. nóvember.

Myndir eru hér

Margrét Elín Ólafsdóttir
Verkefnastjóri kórs Menntaskólans að Laugarvatni