Þriðjudaginn  27. febrúar sl. fóru nemendur í áföngunum Kvikmyndir og saga og  Upplifðu Suðurland í ferð til Reykjavíkur.

Haldið var af stað frá Laugarvatni kl. 13.00 og ekið beint á Þjóðminjasafnið í Reykjavík, þar sem 12 nemendur úr áfanganum Upplifðu Suðurland fóru úr með Jóni Snæbjörnssyni til að sjá grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Fengu þau leiðsögn um safnið sem stíluð var sérstaklega á muni og atburði frá Suðurlandi. Auk þess sáu þau ljósmyndasýningu á jarðhæðinni þar sem voru ljósmyndir frá Laugarvatni.

Kvikmyndasöguhópurinn fór til Hafnarfjarðar í Kvikmyndasafn Íslands, þar sem tekið var á móti hópnum og sagt frá starfsemi safnsins, filmugeymslur skoðaðar – filmur geymdar í stórum kæliklefum – einnig aðrir munir, spólur frá RÚV, videó, geisladiskar og svo ýmis skjöl og veggspjöld úr íslenskri kvikmyndasögu. Leiðsögumaður okkar var Gunnar Tómas Kristófersson sérfræðingur í kvikmyndasögu. Loks fengum vð að sjá gamlar sýningavélar úr bíóhúsum og upptökuvélar og aðrar græjur til kvikmyndagerðar.

Upplifðu Suðurland-hópurinn fór úr Þjóðminjasafninu niður í miðbæ Reykjavíkur og kom við á Landnámssýningunni í Aðalstræti þar sem eru fornminjar frá fyrstu öld byggðar í landinu og heitir sýningin einmitt 874+/-2. 

Eftir þetta sameinuðust báðir hópar í Bíó Paradís við Hverfisgötu þar sem við sáum franska verðlaunamynd frá árinu 2023. Myndin nefnist Anatomy of a Fall á ensku, en Fallið er hátt á islensku.  Myndin var mjög vel gerð, sagan athyglisverð og margslungin. Að vísu fannst mörgum myndin aðeins of löng, en hún hélt samt athyglinni furðuvel.

Að lokinni bíósýningunni var farið á Grillhúsið á Sprengisandi, enda allir orðnir svangir.  Pálmi skilaði okkur svo heim heilum og sælum um klukkan níu að kvöldi, þar sem við stigum út í stjörnubjartan himinn við Laugarvatn.

Kennarar: Sigurður Pétursson og Jón Snæbjörnsson.  Bílstjóri Pálmi Hilmarsson