Ferðalagið til Berlínar gekk afar vel og var einstaklega gott að komast í aðeins hlýrra loftslag eftir langt kuldaskeið á Íslandi. Sól og 12 gráður vorum við því afar þakklát fyrir. Hópurinn ferðaðist með lest á gististaðinn, einstaklega huggulegt farfuglaheimili við Rosenthaler Platz. Þaðan var síðan förinni heitið á Alexanderplatz eftir smá snarl og upp í eitt helsta kennileiti borgarinnar, sjónvarpsturninn (Fernsehturm). Útsýnið úr 203 m háu útsýniskúlunni var magnað og gaman að sjá mjörg kennileiti borgarinnar þaðan.

Föstudaginn 24. mars fengum við leiðsögn frá www.berlinur.de. Það var hann Jóhannes sem fræddi okkur um sögu borgarinnar og stjórnarhætti hennar. Gengið var frá Aðalbrautarstöðinni, að kanslarahöllinni, þinghúsinu og Brandenburgarhliðinu. Þaðan var síðan gengið að minnisvarðanum um helförina og neðanjarðarbyrgi Hitlers. Ferðin endaði á Potzdamerplatz þar sem standa háhýsi í dag og er orðið að fjármálahverfi. Næsta skoðunarferð var í þinghúsinu (Reichstag). Við gengum um húsið og fræddumst um sögu þess og allar þær breytingar sem þar hafa verið gerðar. Hápunkturinn var að ganga upp glerkúpulinn og horfa yfir borgina. 

Á laugardeginum fórum við í neðanjarðarbyrgi úr síðari heimsstyrjöld með Berliner Unterwelten. Við fórum að lestarstöðinni Gesundbrunnen þar sem við fórum inn í byrgið í lestarstöðinni, fæstir sem fara þar um vita af þessu. Byrgið sem við heimsóttum voru stærri en við bjuggumst við, en það fór um mann þegar við heyrðum sögurnar af því hvernig var að vera hér inni. Lítil birta, mannþröng, hætta á að súrefnið klárist og heyra sprengjurnar falla allt um kring. Saga sem snerti okkur öll. Eftir þessa ferð var frjáls tími þar til við borðuðum kvöldmat á ekta þýskum stað. 

Eftir góðviðrisdaga í Berlín vöknuðum við á sunnudegi við rigningu og meiri kulda. En við áttum bókaða ferð með Berlínum um svæði sem var áður á mörkum Austur- og Vestur-Berlínar og því létum við það ekki stoppa okkur. Hinrik Þór gerði góð skil á sögu múrsins og stóðum við oft agndofa yfir lýsingunum. Þarna mátti enn sjá hluta af Berlínarmúrnum sem og varðturn. Seinni part dags birti til og við fórum í rútuferð um borgina og stoppuðum við Gedächtniskirche, kirkja sem fór mjög illa í seinni heimsstyrjöld og stendur hluti hennar enn uppi sem minnisvarði.

Á mánudegi var komið að heimferðardegi. Vegna verkfalls lestarstarfsmanna var aðeins meira vesen að komast á flugvöllinn. Allt gekk sem betur fer vel og voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem hittu Parísarnema á Keflavíkurflugvelli og fór heimferðin í að spjalla um það sem á daga þeirra drifu í ferðunum. Frábær ferð í alla staði og voru nemendur skóla sínum til sóma.

Nemendur æfðu sig í þýsku og tóku upp myndbönd í ferðinni, sem verður nú farið að vinna í að setja saman og sýna hinum í lok annar.

Takk kæru nemendur fyrir frábæra ferð.

Nokkrar myndir úr ferðinni má sjá hér.

Margrét Elín Ólafsdóttir, þýskukennari.