Nýlega héldu níu nemendur til Parísar  og dvöldu þar ásamt kennara sínum í fjóra daga. Ferðin er hluti af svokölluðum Parísaráfanga sem er í boði fyrir frönskunemendur á þriðja ári. Í áfanganum fræðast nemendur um borgina, vinna ýmis verkefni og undirbúa sig sem best fyrir menningarferðina.

Fimmtudaginn 23. mars síðastliðinn kom svo að fyrirheitnu ferðinni. Heimsborgin tók á móti hópnum með ágætis vorveðri og hópurinn gisti á farfuglaheimili í 19. hverfi, rétt við Villette vísindasafnið. Skemmtilegt hverfi með iðandi mannlífi þar sem heimafólk var meira áberandi en ferðamenn. Það var ekkert verið að slóra eftir svefnlitla nótt og langt ferðalag frá Laugarvatni. Fyrsti dagur var tekinn með trompi og við héldum strax í heimsókn í eitt stærsta og þekktasta safn veraldar, Louvre.

Annar dagurinn var ekki síðri og að mati nemenda var heimsóknin til Versala undir leiðsögn Kristínar Jónsdóttur Parísardömu hápunktur ferðarinnar. Ein glæsilegasta höll Evrópu með mikilfenglegum speglasal og fallegum hallargörðum. Skemmtilegast var þó að upplifa lautarferð að frönskum sið og spássera um yndislega sveitaþorpið hennar Maríu Antoinette.

Næstu tvo daga skoðaði hópuirnn mörg af helstu kennileitum Parísar.

Montmarte hæðina og Sacré-Coeur kirkjuna. Á Place du Tertre – málaratorginu létu nemendur mála af sér mynd. Við kíktum við á Café deux Moulins, sögusvið Amélie Poulain kvikmyndarinnar og gaman að fara að skoða vegginn, Je t‘aime.  Þar er ástarjátningin ég elska þig skrifuð á 311 tungumálum. Íslenskan er þar að meðal. Við sáum líka Rauðu mylluna.  Hópurinn skoðaði m.a. Eiffel-turninn, Sigurbogann og Breiðgötuna Champs-Élysées, umhverfi Pompidou safnsins, Latínuhverfið og  Notr -Dame að untanverðu því kirkjan er enn lokuð vegna eldsvoðans árð 2019.  Á sunnudagsmorgni fórum við á skemmtilega markaði, alls konar fínheit á Place de Vosges og líflegan Bastillumarkað með mat og öllu mögulegu. Röltum svo í rólegheitum um fallegu Mýrina. Þetta var afskalega notalegt og minni asi  á okkur en fyrri daga.  Það var gaman að sjá risastyttu af listakonunni Yayoi Kusama við Louis Vuitton verslunarhús og ekki síður mjög raunverulegt vélmenni í hennar mynd. Dvölin var svo toppuð með siglingu á Signu. Allir þreyttir en sælir og glaðir.

Einhverjir nýttu líka tímann til að kíkja í búðir og fór saman í nýendurgerða ( 2018) og risastóra verslunarmistöð  í Les Halles. Kaffihúsin og veitingastaðirnir fengu sinn skerf, kaffi og croissant í morgunverð, sniglar og fleira franskt í kvöldmat. Neðanjarðarlestirnar (métro) voru óspart nýttar og eru þægilegur ferðamáti til að komast hratt og örugglega á milli staða.

Nemendur æfðu sig í frönsku og kynntust heillandi borg. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið öllum lærdómsrík og skemmtileg. Við heimkomuna vinna nemendur ýmis verkefni, klippa saman myndbönd, útbúa möppu eða bók um Parísarferðina. Sérstök kynning á afrakstrinum veður á námsmatstíma í maí.

Það er virkilega gaman og gefandi að fara með nemendum í svona ferð. Ég þakka hópnum í ár fyrir góða og skemmtilega samveru!

Gríma Guðmundsdóttir, frönskukennari.

Myndir úr ferðinni má sjá hér.