Nemendur og kennarar komu saman í matsal skólans þriðjudaginn 8. nóvember á fyrstu málstofu ML á Baráttudegi gegn einelti. Tilgangur málstofunnar var að vekja athygli á því að hér viljum við að ríki góður skólaandi sem byggist á trausti og góðum samskiptum. Verum jákvæð, tillitssöm, sýnum samhug og virðingu. Forðumst neikvæðni, slúður og baktal.
Dagskráin hófst með kynningu Freyju Rósar Haraldsdóttur kennara og jafnréttisfulltrúa á stefnu og áætlunum ML í EKKO málum (áætlun um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi). Lesa má meira um það á heimasíðu skólans undir Góð samskipti. Næst var horft á frumsamið lag eftir fyrrum ML-nemann Gísellu Hannesdóttur sem heitir Dreifum gleði og ást og átti vel við á þessum degi. Þar á eftir stigu fimm hugrakkir nemendur úr 1. bekk í pontu. Þau sögðu sína sögu um afleiðingar eineltis og hvar einelti getur birst. Virkilega áhrifamikil erindi svo heyra mátti saumnál detta þegar þau voru flutt.
Að lokum fóru nemendur í umræðuhópa og ræddu saman um hvernig við getum öll staðið saman svo að einelti, ofbeldi og áreitni eigi sér ekki stað. Meðal þess sem kom til tals voru nafnlausir aðgangar og ljótar skilaboðasendingar. Við þurfum öll að vera vakandi fyrir nýjum áskorunum á tímum samfélagsmiðla.
Skipuleggjendur dagsins þakka kærlega fyrir góða hlustun og umræður. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá málstofunni.
Freyja Rós Haraldsdóttir og Margrét Elín Ólafsdóttir