ML- ingar brugðu sér í borgarjakkann og fóru á þrjú listasöfn í Reykjavík. Fyrst skoðuðum við sýninguna „Jæja“ eftir Guðjón Ketilsson á Kjarvalsstöðum. Þar fengum við nýja sýn á hversdagslega hluti og hugmyndir. Við skoðuðum líka sýningu Kjarvals sem ber heitið „Fyrsti snjórinn „. Í Hafnarhúsinu sáum við sýninguna „Norður og niður“, en það er samsýning listamanna á norðurslóðum. Þrjú söfn halda sýninguna saman en hún var áður sýnd í Portland og er á leið til Svíþjóðar. Nemendur gerðu þrjú verkefni á sýningunni eftir spilum sem söfnin létu útbúa. Fyrst áttu krakkarnir að finna framandi verk í einum sal og lýsa því með einu orði, lesa um verkið og lýsa því svo með setningu. Í næsta sal áttu þau að finna verk sem myndi lýsa þeim sjálfum best og rökstyðja það. Í þriðja salnum áttu þau að finna persónu í verki og ímynda sér hvernig manneskja þetta er. Ég mæli með þessari sýningu og spilunum, því þar eru góðar núvitundar- og sköpunaræfingar fyrir fjölskyldur. 

Veðrið var gott og því gengum við í Listasafn Einars Jónssonar. Það var gaman að koma í þetta friðaða hús og sjá þessi risastóru og frægu verk. Það var gott að enda þetta á að skoða verkið „Hvíld“ sem minnir okkur á að við þurfum að losa okkur undan okkar eigin klöfum til að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.  

Með meðfylgjandi myndum vil ég þakka nemendum fyrir sýnda prúðmennsku í ferðinni. 

Heiða Gehringer