Áfangarnir Myndlist, Upplifðu Suðurland og Fatasaumur fóru 10. apríl sl. í ferð til Reykjavíkur.
Ferðin hófst á Kjarvalsstöðum. Fengum við flotta leiðsögn hjá Adriönnu Stańczak í gegnum safnið þar sem sýningarnar Kjarval á 20 öldinni og Aðgát eftir Borghildi Óskarsdóttur voru uppi.
Fengum við að borða á Stúdentakjallaranum, góð og hröð þjónusta svo við áttum mjög rúman tíma í hádeginu og var ákveðið að fara í gönguferð um háskólabyggingarnar með Jóni sem sagði okkur frá arkitektúr og starfsemi í byggingunum.
Næsti viðkomustaður var miðbær Reykjavíkur. Á leiðinni var þeim bent á arkitektúr húsa á svæðinu. Rútunni var lagt við Hörpuna, þaðan gengu allir saman niður að Hafnarhúsi. Nemendum var næst skipt eftir áföngum. Nemendur í áfanganum hjá Jóni auk þeirra sem höfðu áhuga fóru í höfuðstöðvar The Reykjarvík Grapevine og fengu kynningu þar á starfssemi tímaritsins. Hinn hluti hópsins fór í Hafnarhúsið. Þar eru í gangi sýningarnar Valdatafl eftir ERRÓ og D-vítamín, sem er samsýning 15 ungra listamanna. Áhugaverðar sýningar þar sem Adríanna var dugleg að segja okkur frá verkunum og fá nemendur til að staldra við og hugsa.
Að lokum fórum við í Þjóðleikhúsið. Þar tók á móti okkur Jón Stefán Sigurðsson og leiddi okkur um töfra leikhússins. Fengum við að ganga á milli deilda og sjá hvernig leiksýningar verða til. Nemendur voru mjög duglegir að spyrja. Einnig rákumst við á nokkra landsþekkta leikara sem vakti mikla lukku í hópnum.
Þetta var vel heppnaður dagur í höfuðstað okkar og fengu nemendur hrós fyrir kurteisi og áhugasemi á þeim stöðum sem við heimsóttum. Við þökkum kærlega fyrir daginn.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá deginum.
Heiða, Jón og Jórunn