Miðvikudaginn 30. mars fóru nemendur í LIST2MY4 í dagsferð til Reykjavíkur. Við byrjuðum á að skoða Ásmundarsafn, þar sem myndlistarmaðurinn Rósa Gísladóttir sýnir verk sín í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar. Sýningin er mögnuð og hafði mikil áhrif á okkur og húsið sem Ásmundur byggði sjálfur á 7 árum er magnað listaverk í sjálfu sér. Í kjölfarið komu fram beiðnir frá nemendum að fá að vinna að skúlptúrum eins og Ásmundur og Rósa gera. Næst fórum við á Kjarvalsstaði. Þar er yfirlitssýning á verkum Birgis Andréssonar. Við heyrðum sögu Birgis og hvernig verk hans speglast í því að alast upp með blindum foreldrum. Verkin hans fjalla um lýsingar á fólki og miklar pælingar í litum. Hverjir eru hinir íslensku litir? Hann vann verk sem fór á Feneyjatvíæringinn 1995 með íslenska fána í sauðalitunum. Við sáum einnig litla sýningu á verkum Kjarvals sem voru valin sérstaklega eftir nokkrum „íslenskum“ litum Birgis: gráum og mosagrænum tónum.
Við borðuðum á Kjarvalsstöðum, á Klambrar Bistro. Það var yndislegt og ekki spillti fyrir að nemendur sem eru að læra söngleikjasöng í Listaháskólanum héldu tónleika í hádeginu. Næst lá leiðin á Listasafn Íslands þar sem við skoðuðum tvær sýningar. Fyrst sáum við sýningu eftir Birgi Snæbjörn Birgisson – Í hálfum hljóðum. Verk hans eru þrælpólítísk og máluð í mjög ljósum tónum, eins og þau séu að hvísla. Maður þarf að fara nálægt þeim til að sjá hverju þau eru að hvísla. Þarna voru verk um þingmenn okkar þar sem allir voru ljóshærðir og bláeygðir, Samherjamálið og af draumum Húsmæðraskólastúlkna áður fyrr. Síðast fórum við á sýninguna Sviðsett augnablik þar sem ýmsir ljósmyndarar og listamenn sýna okkur sviðsettar myndir. Þar voru verk sem t.d. fjölluðu um sjómenn, hvernig allir eiga að vera eins, erfðabreytt matvæli og margt fleira.
Allt í allt var þetta gífurleg menningarferð og voru nemendur mínir til algjörrar fyrirmyndar. Áhugasamir og kurteisir í hvívetna. Menntaskólinn ákvað því að kaupa handa þeim árskort í söfnin þrjú sem eru undir hatti Listasafns Reykjavíkur. Hafnarhúsið er lokað þegar þetta er skrifað en þar er verið að setja upp RISA afmælissýningu Errós, en hann verður níræður í sumar. Ég vil hvetja mína nemendur að kíkja í Hafnarhúsið, en sýningin opnar bráðlega. Eins vil ég hvetja ykkur hin að gefa ykkur tíma í að fara á listasafn, það vekur alltaf með manni spurningar og innblástur.
Takk kærlega fyrir ferðina!
Heiða Gehringer