Nemendur í 2. bekk flökkuðu um helstu sögustaði Njálu í blíðskaparveðri á dögunum.  Fyrst var komið að Þingskálum, þeim forna þingstað sem oftsinnis er vikið að í sögunni.  Á Þingskálum skoðuðu nemendur  fornar búðatóftir sem þar eru um fjörutíu talsins, enn sýnilegar. Tóftirnar eru stórmerkilegar og sýna hversu óhemjustórar slíkar búðir voru á þjóðveldisöld. Þær stærstu voru á stærð við gott einbýlishús okkar tíma enda var völlur á mönnum á þessum tíma!

Við Eystri-Rangá börðust nemendur með heimasmíðuðum trésverðum og féllu ófá.  Bank og högg bárust víða um Rangárvelli í morgunkyrrðinni.  Þá gengu nemendur að sjálfsögðu heim traðirnar að Hlíðarenda og meira að segja var settur upp leikþáttur niðri á söndunum þar sem Gunnar leit hina fögru Hlíð og hætti snarlega við að flýja óvini sína.  Á Bergþórshvoli var tárast yfir örlögum Þórðar litla Kárasonar sem kafnaði í brennunni og ekki síður reiðst yfir því að enginn hefði haft dug í sér að henda krakkanum út!  

Með í Njáluferðinni voru Elín Una Jónsdóttir íslenskukennari og Sigurður Pétursson sögukennari. Pálmi keyrði rútuna að vanda. Í ferðinni lifnuðu sagan og persónur hennar við, margar spurningar vöknuðu og hugmyndir kviknuðu.  Njáluferðin var því ekki bara skemmtiferð heldur sannkölluð námsferð. 

Hér má sjá myndir úr ferðinni.

Elín Una