Nýnemaviku lýkur venju samkvæmt með skírn nýnemanna í Laugarvatni. Dagskrá vikunnar hefst á kynningarfundi með nýnemum og foreldrum þeirra undir stjórn starfsfólks ML og nýnemar koma sér fyrir í fyrsta skipti á herbergjum á heimavistinni. Formlegar kynningar á skólastarfinu sjálfu tekur svo við á þriðjudegi ásamt hópefli og kynningu á störfum nemendafélagsins Mímis. Á miðvikudagsmorgni er formleg skólasetning í matsal ML og í kjölfarið hefst kennsla samkvæmt stundatöflu. Allt hefðum samkvæmt. Föstudagurinn er svo sá dagur þegar nýnemarnir eru formlega vígðir inn í hóp ML-inga. Nýnemum er smalað samkvæmt ritúali niður að vatni og rísa upp úr Laugarvatninu sem fullgildir ML-ingar. 

Skírn föstudagsins 25. ágúst síðastliðins fór fram í blíðskaparveðri sem gerir góðar minningar svo bjartar og fallegar. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru á skírnardeginum en myndatöku annaðist hirðljósmyndari skólans, Ívar Sæland. 

Nýnemum óskar starfsfólk ML innilega til hamingju með fallegan dag sem og farsællar skólagöngu í ML. 

Myndir frá skírninni má sjá hér.

Jóna Katrín