Í gærkvöldi lék 11. flokks lið Laugdæla sinn fyrsta leik á tímabilinu. Andstæðingurinn að þessu sinni var lið Fjölnis úr Grafarvogi sem lék undir stjórn sjálfs Ólafs Jónasar Sigurðssonar, sem þjálfaði í fyrra íslandsmeistaralið Valskvenna. Þegar undirritaður mætti til starfa, sem var að venju 5 mínútum of seint, kom honum skemmtilega á óvart þéttsetin stúkan, trommusláttur og spennuþrungin stemning. Leikurinn byrjaði enda feikna vel hjá okkar mönnum og virtist sem þeir þrifust á áköfum stuðningnum á meðan andstæðingnum féll hann illa. Herskár varnarleikur þvingaði marga tapaða bolta og slök skot Fjölnis og oftar en ekki komu auðveldar körfur hinum megin eftir hraðar sóknir. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 23-13 fyrir heimamenn sem bættu svo duglega í framan af þeim næsta. Mestur varð munurinn 38-19 um miðbik annars leikhluta. Uppfrá því fór þó að draga saman með liðunum og í hálfleik höfðu Grafarvogsbúar minnkað muninn niður í 11 stig, 43-32. Nú virtust aðkomumennirnir vera búnir að hrista af sér sviðsskrekkinn og sölluðu hægt og rólega niður forskotið. Komust næst í þriggja stiga mun í þriðja fjórðungi en Laugdælir svöruðu vel og komu forskotinu í 12 stig með 11-2 áhlaupi snemma í fjórða leikhluta. Ekki var þó björninn unninn og með mikilli þrautseigju sinni, ásamt arfaslakri vítanýtingu heimamanna tókst Fjölni að jafna leikinn þegar um mínúta var eftir. Laugdælum tókst þó að komast aftur yfir með tveimur vítum hittum úr fjórum tilraunum sem þeir gulklæddu svöruðu þó um hæl og 10 sekúndur eftir á klukkunni. Laugdælir brunuðu upp völlinn og eftir góða sendingu frá Loga braust Kári í gegnum vörn gestanna og lagði boltann í körfuna með góðu flotskoti úr miðjum teignum um leið og flautan gall. Lokastaðan: 75-73 fyrir Laugdæli.

Í leikmannahópnum voru að þessu sinni 8 leikmenn en 7 komu inná og eftirfarandi lögðu mælt framlag í púkkið:

Kári Daníelsson 20 stig

Ingvar Jökull Sölvason 19

Logi Smárason 18

Óskar Ingi Eyþórsson 12

Gunnar Geir Rúnarsson 5

Sigurður Emil Pálsson 2

Einnig voru í hópnum Guðmundur Kolbeinsson og Bjarni Harald Kristinsson og skiluðu báðir sínu hlutverki vel.

Óhætt er að segja að þessi leikur hafi verið sögulegur því sjaldan hafa eins margir áhorfendur flykkst á leik hér á Laugarvatni í seinni tíð, og hvað þá í yngri flokkum. Í 11. flokki leika drengir í fyrsta bekk menntaskóla ásamt tveimur yngri og er þessi leikur vægast sagt góð byrjun á samstarfi UMFL og Menntaskólans að Laugarvatni sem býður nú uppá körfuboltaval, kennt af okkar eigin Florijan Jovanov, sem mun nú vonandi gera skólann að góðum kosti fyrir metnaðarfulla körfuboltakrakka.

Bjarni Bjarnason formaður körfuknattleiksdeildar UMFL