Miðvikudaginn 20. mars lagði 2. bekkur af stað eldsnemma að morgni í sameiginlega bæjarferð stjórnmálafræði- og lífsleikniáfanga. Daginn átti að nýta vel í heimsóknir en ferðin flokkast undir samstarfs- og samskiptaverkefni í ML.  

Báðir bekkir heimsóttu Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og borðuðu saman hamborgara í Stúdentakjallaranum. Gerð voru greinargóð skil á námsframboði og því sem fer fram í skólunum. Þessir skólar sem og aðrir háskólar á landinu hafa upp á margt að bjóða og er mikilvægt fyrir nemendur að kynna sér það. Skiljanlegt er að nemendur eigi erfitt með að velja eitthvað eitt með öll þessi frábæru námstækifæri sem bjóðast í dag.  

Nemendur í 2.F sem eru á Félags- og hugvísindabraut heimsóttu Alþingi, fengu leiðsögn um húsið og fræðslu um störf þingsins. Hafdís Hrönn þingkona hitti svo hópinn, sagði frá sinni reynslu og tók dæmi um málefni sem tekist er á um í þinginu þessa dagana. Hún brýndi unga fólkið til að fylgjast vel með, kynna sér mál til hlítar og taka þátt.  

Síðasta heimsókn ML-inga til Guðna Th. Jóhannesar á Bessastöðum var eftirminnileg. Forsetinn bauð upp á pönnsur, kaffi og fleira góðgæti með síðdegiskaffinu. Nemendum gafst kostur á að spyrja hann spjörunum úr, eins og hvað væri erfiðast að vera forseti, hvað væri það mikilvægasta sem hann hafi gert sem forseti og hvernig hægt væri að bæta umræðuhefðina og auka stjórnmálaþátttöku ungs fólks.  

Á meðan heimsótti 2.N (Náttúruvísindabraut) Flugstjórnarmiðstöðina og stoðtækjafyrirtækið Össur. Fengu nemendur virkilega áhugaverðar kynningar á báðum stöðum og  leiðsögn um staðina. Kynning á starfsemi Flugstjórnarmiðstöðvarinnar kom okkur virkilega á óvart. Vinnusvæði flugumferðarstjóra er í stóru og flottu rými með risastórum tölvuskjám. Við sáum einnig flugumferðarstjórnarherminn og var nemandi að æfa sig þar í samskiptum við flugvélar. Það vita líklega fáir að Ísland sér um næststærsta flugsvæði heims og um 400 vélar sem fljúga inn á það á sólarhring. Að komast inn í námið er erfitt en nú síðast komust einungis 12 inn af um 230 umsækjendum.  

Í Össur fengum við líka frábærar móttökur. Þar kynntust áhugasamir nemendur sögu fyrirtækisins og fengu að sjá mismunandi tegundir af stoðtækjum. Össur er virkilega stórt fyrirtæki með um 4000 starfsmenn í 36 löndum. Flestir kúnnar þess eru erlendir, stærsti kúnninn er bandaríski herinn. Í fyrirtækinu starfa t.d. verkfræðingar, læknar, sjúkraþjálfarar, markaðsfræðingar og svo mætti lengi telja. Össur er duglegt að fá fólk í lið með sér sem hefur misst útlim til að prófa vörurnar og vöruþróunin er endalaus. 

Allir kynningarfulltrúar voru virkilega almennilegir og svöruðu öllum þeim fjölmörgu spurningum sem nemendur báru upp. Nemendur fengu hrós alls staðar sem við komum og var þetta virkilega skemmtileg og lærdómsrík ferð.  

Hér eru myndir úr ferðinni.

Freyja stjórnmálafræðikennari og Margrét lífsleiknikennari