Æfingabúðir í Aratungu er fastur liður í að þjappa kór Menntaskólans að Laugarvatni saman og undirbúa nýliða kórsins undir það sem koma skal. Eftir skólalok á föstudegi var haldið af stað í Aratungu þar sem byrjað var á æfingum og endað á kvöldvöku. Farið var í leiki og flutti hver rödd sitt atriði sem voru öll virkilega skemmtileg. Að þessu sinni var það sópran sem vann. Laugardagurinn byrjaði á æfingum og enduðu kórbúðirnar á litlum æfingatónleikum þar sem allur hópurinn byrjaði á að syngja saman og var honum síðan skipt niður í smærri hópa. Þess má geta að þetta árið eru hvorki meira né minna en 55 nýnemar sem er nánast helmingur kórsins. í heildina telur kórinn 118 meðlimi. Tónleikarnir heppnuðust virkilega vel og ótrúlegt að hugsa til þess að Eyrún Jónasdóttir kórstjóri sé einungis búin að æfa með kórnum í mánuð.

Næst á dagskrá hjá kórnum er að æfa jólalögin. Jólatónleikar verða haldnir í Skálholtskirkju 23. og 24. nóvember og verða þeir auglýstir betur síðar þegar miðasala hefst. Eins er líklegt að kórinn syngi með kór Menntaskólans við Hamrahlíð á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember.

Myndir frá æfingabúðum og tónleikum má sjá hér fyrir neðan.

Margrét Elín Ólafsdóttir verkefnastjóri kórs Menntaskólans að Laugarvatni