Á köldum en björtum þriðjudegi í nóvember fengu nemendur í íslensku í 3F sér lystitúr með kennara sínum. Orðið lystitúr er e.t.v. ekki algengt en merkir skemmtireisa eða ferð sem farin er sér til ánægju og upplyftingar. Dæmi um orðið má finna í ritmáli frá 19. öld en síðar notaði Halldór Laxness orðið í bæði Brekkukotsánnáli og í Guðsgjafarþulu. Orðið lystitúr á einkar vel við um þessa ferð enda viðkomustaðirnir tengdir bókmenntum og gamla tímanum, þ.e. Heimili Halldórs Laxness að Glúfrasteini, Konubókastofa og Byggðasafn Árnesinga.  

Það var margt sem vakti athygli glöggra nemenda að Gljúfrasteini. Fyrst má nefna öll málverkin eftir helstu abstrakt-listamenn þjóðarinnar og húsgögnin eftir heimsfræga hönnuði. En þó vakti ekki síður athygli þeirra hálfreyktur vindill á hliðarborði við snjáðan húsbóndastól Halldórs. Vindillinn liggur þar eins og skáldið hefði nýlagt hann frá sér og rétt skotist frá! Hatturinn hennar Auðar hefur sama yfirbragð. Það er eins og hún hefði tekið hann ofan rétt í þessu og lagt hann á snyrtiborðið.  Síðan hefði hún litið eitt augnablik í spegilinn og strokið yfir hárið áður en hún fór inn í eldhús! Nemendum þótti líka mikið til koma um allar bækurnar á Gljúfrasteini og trúðu ekki að Halldór hefði lesið þær allar.  

Næst lá leiðin á Eyrarbakka á Konubókastofu. Þar tók Anna Jónsdóttir elskulega á móti hópnum og kynnti m.a. fyrstu prentun af ljóðabókinni Stúlku sem gefin var út 1876 og er fyrsta bókin sem út kom á Íslandi eftir konu.  

Að lokum tók andi liðinna alda yfir lýstitúrinn í Byggðasafni Árnesinga. Safnvörðurinn Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir tók á móti nemendum með fróðleik og ýmsum fræðum en leiddi þau fljótt inn í skapandi leik. Áður en varði þrömmuðu þau og endasentust út um króka og kima og hlátrasköll ómuðu stafna á milli.  Leikurinn fólst nefnilega í því að finna gamla og skrítna muni og semja um þá nýjar ,,söguskýringar“ sem reyndust síðan ,,kolrangar“ og sprenghlægilegar.   Hver hefði trúað því að galdrastaf Dumbeldore og aldagamla nuddvél væri að finna niðri á Eyrarbakka? 

Það voru sælir ferðalangar sem komu heim úr lystitúrnum og hlupu beint niður stigann í ML í ,,kaffi“ hjá Svenna! 

Hér eru lystitúrsmyndir.

Elín Una Jónsdóttir, íslenskukennari