Eftir skóla þann 23. janúar sl. héldu nemendur í útivistarvali í rútuferð og var ferðinni heitið í Skagafjörð þar sem ætlunin var að skíða á skíðasvæði Tindastóls. Gist var í nýjum skála við skíðasvæðið og kom í ljós þegar við mættum að þar var símasamband af mjög skornum skammti. Þetta litla símasamband gerði það að verkum að nemendurnir þurftu að tala saman og finna sér eitthvað til dægrastyttingar þegar ekki var verið að skíða, nemendur sungu útbjuggu spurningakeppnir o.fl. Eftir morgunverð þann 24. var haldið í lyfturnar og skíðað fram að hádegismat sem var í formi kjötsúpu sem nemendur svolgruðu í sig. Þá var haldið aftur á skíði eða bretti og vorum við að til kl 17 þegar haldið var í sund á Sauðárkróki og í mat og sýndarveruleika sýninguna Baráttan um Ísland. Þegar komið var tilbaka í Tindastól gátu þeir sem ekki höfðu fengið nóg af skíðamennsku farið í lyfturnar og skíðað í flóðlýsingu. Daginn eftir var svo skíðað til kl 14 með stuttu pylsustoppi í hádeginu og svo haldið af stað heim á leið.
Þessi ferð var frábær í alla staði, veðrið gott og nemendurnir til fyrirmyndar.
Smári Stefánsson, útivistarkennari.